föstudagur, desember 12, 2008

Flutningar og fleira skemmtilegt

Ég er búin að komast að þeirri niðurstöðu að ég þarf að eiga stórt þvottahús í framtíðinni. Þetta misskilst líklega auðveldlega... mér finnst ALLS EKKI gaman að þvo þvott. Sem er líklega ástæðan fyrir því að þegar ég tek mig og geri það loksins bíða að minnsta kosti 4-6 vélar sem ég vil
þá bara KLÁRA á sem skemmstum tíma. Það útheimtir aftur á móti óhemju þurrk-pláss og þar kemur stóra þvottahúsið inn í myndina, þarf að vera pláss fyrir allar snúrurnar sem ég ætla mér að nota... Eða þá að maður fái sér effektívan þurrkara bara. Annars finnst mér líka hauga leiðinlegt að brjóta saman þvotti, svo að það er ágætt að leyfa fötunum að hanga soldinn tíma á snúrunni svo ég geti safnað orku og kjarki í millitíðinni.

En ég stend sem sagt á haus í þvotti þessa stundina og orðin uppiskroppa með snúrupláss, sveiattan. Hreina þvottinum verður síðan pakkað beint ofan í töskur (meðan töskupláss endist) og smám saman dregst vonandi draslið hérna saman í flutningshæft ástand. Því þrátt fyrir að pappírsvinnan kringum þennan leigusamning hafi gengið öll á afturfótunum í vikunni stefnir allt í að við flytjum núna á sunnudag eða mánudag í það síðasta :D Það verður óskaplega indælt, þá tekst manni kannski að ná upp einhverjum metnaði fyrir að hafa ekki allt í drasli hjá sér og komast vonandi í eitthvað örlítið jólaskap... það gengur nefnilega líka eitthvað voða takmarkað, þrátt fyrir að ég föndri jólaskraut og syngi jólalög í vinnunni flesta morgna. Jólalögin fá allavega að óma meðan ég held áfram að taka til, og aldrei að vita nema ég skrifi á nokkur jólakort milli þvottavéla... og skoli þessu svo öllu niður með smá jólabjór í kvöld ;)